19
1 Þá lét Pílatus húðstrýkja Jesú. 2 Og að því loknu bjuggu hermennirnir til kórónu úr þyrnum, settu hana á höfuð hans og færðu hann síðan í purpurarauða skikkju.
3 „Lengi lifi konungur Gyðinga!“ hrópuðu þeir í hæðnistóni og börðu hann.
4 Pílatus fór nú aftur út og sagði við Gyðingana: „Ég ætla að leiða hann fram fyrir ykkur, en gerið ykkur ljóst að ég finn enga sök hjá honum.“ 5 Jesús gekk þá út í skikkjunni rauðu og með þyrnikórónuna á höfði. Þá sagði Pílatus: „Sjáið manninn!“
6 Þegar æðstu prestarnir og embættismennirnir sáu Jesú, æptu þeir og sögðu: „Krossfestu! Krossfestu hann!“
„Krossfestið þið hann sjálfir,“ svaraði Pílatus, „ég finn alls enga sök hjá honum.“
7 Þá svöruðu þeir: „Samkvæmt okkar lögum á hann að deyja, því að hann sagðist vera sonur Guðs.“
8 Þegar Pílatus heyrði þetta, varð hann enn hræddari. 9 Aftur fór hann með Jesú inn í höllina og spurði: „Hvaðan ertu?“ Jesús svaraði engu.
10 „Svaraðu mér!“ sagði Pílatus ógnandi. „Veistu ekki að ég hef vald til að láta þig lausan og ég hef einnig vald til að krossfesta þig?“
11 Jesús svaraði: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan og því er synd þeirra, sem leiddu mig hingað, meiri en þín.“
12 Pílatus reyndi enn að fá hann lausan, en þá sögðu leiðtogar Gyðinga við hann: „Ef þú sleppir honum, þá ertu óvinur keisarans, því sá sem segist vera konungur, rís gegn keisaranum!“
13 Þegar Pílatus heyrði þetta, leiddi hann Jesú aftur fram fyrir þá og settist í dómarasætið. 14 Þetta var um sexleytið að morgni, daginn fyrir páskahátíðina.
Pílatus sagði nú við Gyðingana: „Hér er konungur ykkar!“
15 „Burt með hann!“ æptu þeir, „burt, með hann – krossfestu hann!“
„Hvað þá? Krossfesta konung ykkar?“ spurði Pílatus.
„Við höfum engan konung nema keisarann,“ hrópuðu æðstu prestarnir.
16 Þá lét Pílatus Jesú í hendur þeirra að hann yrði krossfestur.
Krossfestingin
17 Loksins höfðu Gyðingar Jesú á sínu valdi. Þeir fóru með hann út úr borginni og hann bar kross sinn til staðar sem kallast Hauskúpa eða Golgata á hebresku. 18 Þar krossfestu þeir hann og tvo aðra með honum, Jesú í miðið, en hina sinn til hvorrar handar. 19 Pílatus lét setja skilti á krossinn uppi yfir Jesú, þar sem stóð: „Jesús frá Nasaret, konungur Gyðinga.“ 20 Staðurinn þar sem Jesús var krossfestur, var nálægt borginni og því lásu margir það sem á skiltinu stóð. Áritunin var á hebresku, latínu og grísku.
21 Æðstu prestarnir sögðu þá við Pílatus: „Breyttu þessu og láttu standa: „Hann sagði: Ég er konungur Gyðinga.“ “
22 Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað. Því verður ekki breytt.“
23-24 Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, skiptu þeir fötum hans í fjóra hluta, svo að hver fékk sinn hlut. Síðan sögðu þeir: „Við skulum ekki skipta kyrtlinum í fernt, því að hann er prjónaður og hvergi samsettur, við skulum heldur varpa hlutkesti um hann.“ Þar með rættist ritningarstaður sem segir svo: „Þeir skiptu með sér klæðum mínum og vörpuðu hlutkesti um kyrtil minn.“
25 Það var einmitt þetta sem þeir gerðu. Nálægt krossi Jesú stóð María móðir hans, María móðursystir hans, kona Kleófasar og María Magdalena. 26 Þegar Jesús sá móður sína standa þar hjá nánasta vini sínum, sagði hann við hana: „Hann er sonur þinn.“
27 Síðan sagði hann við mig: „Hún er móðir þín.“ Frá þeirri stundu tók ég hana inn á heimili mitt.
28 Nú vissi Jesús að öllu var lokið og því sagði hann, til þess að uppfylla spádóm Biblíunnar: „Mig þyrstir.“ 29 Rétt þar hjá stóð krukka með súru víni. Svampur var vættur í víninu og festur á ísópsgrein, sem síðan var rétt upp að vörum hans.
30 Eftir að Jesús hafði bragðað á víninu sagði hann: „Það er fullkomnað!“ Síðan hneig höfuð hans og hann gaf upp andann.
31 Menn vildu ekki láta fangana hanga þarna næsta dag, sem var helgidagur (mesti helgidagur ársins – páskarnir). Þeir báðu því Pílatus að skipa svo fyrir að fótleggir mannanna skyldu brotnir, og þannig flýtt fyrir dauða þeirra, svo að hægt yrði að taka líkin niður. 32 Hermennirnir komu því og brutu beinin í mönnunum tveimur, sem krossfestir höfðu verið með Jesú. 33 En þegar að honum kom, sáu þeir að hann var þegar dáinn og brutu því ekki bein hans.
34 Einn hermannanna stakk spjóti í síðu Jesú og rann þá út blóð og vatn. 35 Ég sá þetta allt sjálfur og skýri hér satt frá, svo að þið getið einnig trúað.
36-37 Þetta gerðu hermennirnir til að rættist ritningarstaður sem þannig hljóðar: „Ekkert af beinum hans mun brotið verða,“ og „þeir munu horfa á þann sem þeir stungu“.
Jesús lagður í gröf
38 Jósef frá Arímaþeu, sem var lærisveinn Jesú á laun, af ótta við leiðtoga Gyðinga, bað Pílatus um leyfi til að taka líkama Jesú niður og leyfði Pílatus honum það. 39 Nikódemus, maðurinn sem eitt sinn hafði komið til Jesú seint um kvöld, kom einnig og hafði með sér fimmtíu kíló af smyrslum sem gerð voru úr myrru og alóe. 40 Þeir hjálpuðust síðan að við að vefja líkama Jesú í léreftsdúk, smurðan ilmsmyrslum, en slíkt er venja við greftranir hjá Gyðingum. 41 Rétt hjá aftökustaðnum var trjálundur. Þar var ný gröf, sem aldrei hafði verið notuð. 42 Vegna hátíðarinnar, sem hófst klukkan sex síðdegis, þurftu mennirnir að hafa hraðan á og vegna þess hve gröfin var nálægt, lögðu þeir hann þar.